Sendir Haaland í frí í nóvember

Pep Guardiola er að vonum ánægður með Erling Haaland.
Pep Guardiola er að vonum ánægður með Erling Haaland. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City segir að það sé synd að Erling Haaland fái ekki tækifæri til að taka þátt í heimsmeistaramótinu sem hefst í Katar í næsta mánuði en í staðinn verður Norðmaðurinn sendur í frí.

Haaland hefur verið óstöðvandi með City það sem af er þessu tímabili og skorað 19 mörk í 12 leikjum en félagið keypti hann af Borussia Dortmund í sumar.

„Það er synd að hann skuli ekki vera með á HM. Ég vildi að allir hefðu komist þangað. En hann er ungur og á möguleika á því framtíðinni. Allt áhugafólk um fótbolta vill sjá bestu leikmennina og hann er án efa í þeirra hópi," sagði Guardiola við fréttamenn á æfingasvæði City í dag.

Aðspurður um hvað Haaland myndi hafa fyrir stafni í HM-fríinu sagði Guardiola. „Hann fær tveggja vikna frí, og svo hefur hann æfingar á ný með þeim leikmönnum sem verða hér.“

Norska landsliðið hefur ekki komist í lokakeppni heimsmeistaramótsins í 22 ár en Haaland á möguleika á að taka þátt í að koma því þangað fyrir HM 2026 sem fer fram í Norður-Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert