Mér hefði ekki getað liðið verr

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi. AFP/Oli Scarff

„Þetta er eins og Meistaradeildarleikur,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi í dag fyrir leikinn gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í Norður-Lundúnum á sunnudaginn kemur. 

Liverpool er sem stendur í níunda sæti deildarinnar með 16 stig. 15 stigum frá Arsenal á toppi deildarinnar og átta stigum frá Newcastle sem er í fjórða sæti deildarinnar. 

„Þetta er risastór leikur fyrir okkur en á sama tíma mjög erfiður. Ég hef ekki talið stigamuninn á milli okkar og þeirra en við getum ekki pælt í því. Við verðum að fara í þennan leik með fullum krafti, en það verður erfitt. 

Við vitum öll að Tottenham er vel skipulagt lið. Það verst á gríðarlega háu stigi og skyndisóknir liðsins eru stórhættulegar. Tottenham er á góðu augnabliki og sneri tveimur mikilvægum leikjum sér í vil á síðustu mínútunum. Við erum tilbúnir fyrir sterkan andstæðing. 

Það eru engir vináttuleikir gegn Tottenham. Þetta verður erfiður leikur en það er það sem við viljum öll. Þetta er eins og Meistaradeildarleikur í úrvalsdeildinni og þannig munum við nálgast hann. 

Liverpool tapaði gegn Leeds, 1:2, í síðasta leik sínum í ensku deildinni þar sem að Crysencio Summerville skoraði sigurmarkið á lokamínútunum. Klopp segir tilfinninguna eftir þann leik hafa verið vægast sagt slæma. 

„Mér hefði ekki getað liðið verr eftir leikinn gegn Leeds. En svo spiluðum við góðan leik gegn Napólí og það kveikti aðeins í okkur. Nú spilum við gegn Tottenham og vonandi gerum við svipaða hluti þar og gegn Napólí,“ sagði þýski þjálfarinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert