Höfnuðu tilboði í Harry Maguire

Harry Maguire hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði United …
Harry Maguire hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði United á tímabilinu. AFP/Oli Scarff

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United höfnuðu tilboði frá enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham í Harry Maguire, fyrirliða liðsins, á dögunum.

Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en samkvæmt enska miðlinum vildi West Ham fá varnarmanninn að láni út keppnistímabilið.

Forráðamenn United hafa hins vegar lítinn áhuga á því að missa Maguire á miðju tímabili en hann gæti verið til sölu næsta sumar.

Maguire, sem er 29 ára gamall, gekk til liðs við Manchester United frá Leicester sumarið 2019 en United borgaði 80 milljónir punda fyrir hann og er hann dýrasti varnarmaður heims enn þann dag í dag.

Hann missti sæti sitt í byrjunarliði United í haust eftir að Erik ten Hag tók við stjórnartaumunum á Old Trafford.

Alls á hann að baki 159 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað sjö mörk en United er sagt tilbúið að selja hann á 50 til 60 milljónir punda í sumar.

mbl.is