City minnkaði forskot Arsenal niður í tvö stig

Erling Haaland er kominn með 25 mörk í ensku úrvalsdeildinni …
Erling Haaland er kominn með 25 mörk í ensku úrvalsdeildinni í aðeins 19 leikjum. AFP/Paul Ellis

Ríkjandi Englandsmeistarar Manchester City unnu öruggan sigur, 3:0, á Wolverhampton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag þar sem norska markavélin Erling Haaland skoraði þrennu.

Haaland skoraði mörkin á innan við stundarfjórðungi; á 40. mínútu, á 50. mínútu úr vítaspyrnu og loks á 54. mínútu.

Norðmaðurinn er þar með búinn að skora 25 deildarmörk í aðeins 19 leikjum á tímabilinu og því fátt sem virðist ætla að koma í veg fyrir að hann stórslái núverandi markamet deildarinnar, enda á Man. City enn eftir að spila 18 deildarleiki.

Metið er 32 mörk í 20-liða deild, sem er sem stendur í höndum Mohamed Salah. Hann skoraði 32 mörk í 36 leikjum fyrir Liverpool tímabilið 2017/2018.

Með sigri Man. City í dag tókst liðinu að minnka forskot toppliðs Arsenal niður í aðeins tvö stig, en Arsenal á þó tvo leiki til góða, þar á meðal stórslag gegn Manchester United klukkan 16.30 í dag.                        

Einum öðrum leik er lokið í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leeds United fékk Brentford í heimsókn á Elland og gerðu liðin markalaust jafntefli.

mbl.is