Bielsa eða Dyche

Sean Dyche og Marcelo Bielsa eru líklegastir til að taka …
Sean Dyche og Marcelo Bielsa eru líklegastir til að taka við Everton. AFP

Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa og Englendingurinn Sean Dyche eru líklegastir til að taka við stjórnartaumunum hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton, en þeir hafa báðir rætt við félagið.

Sky greinir frá að félagið sé bjartsýnt á að ráða nýjan stjóra fyrir helgi, en Frank Lampard var rekinn frá Everton á mánudag. Liðinu hefur gengið afar illa á leiktíðinni og er í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Farhad Moshiri, eigandi Everton, er hrifnari af Bielsa, en hann er mun dýrari ráðning. Mun það kosta Everton um eina milljón punda á mánuði að hafa Argentínumanninn í starfi.

Dyche stýrði síðast Burnley með góðum árangri, en var rekinn í apríl á síðasta ári. Bielsa var rekinn frá Leeds tveimur mánuðum áður, en hann náði glæsilegum árangri með liðið og kom því upp í ensku úrvalsdeildina eftir 16 ára fjarveru.

mbl.is