Skrópaði á æfingu þriðja daginn í röð

Anthony Gordon vill yfirgefa Everton.
Anthony Gordon vill yfirgefa Everton. AFP/Paul Ellis

Knattspyrnumaðurinn Anthony Gordon skrópaði á æfingu hjá enska úrvalsdeildarliðinu Everton þriðja daginn í röð í dag, en hann hefur verið orðaður við Newcastle að undanförnu.

Sky greinir frá að Newcastle sé reiðubúið að greiða 40 milljónir punda fyrir sóknarmanninn, sem vill skipta um félag. Newcastle er í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni á meðan Everton er í fallsæti.

Newcastle er ekki eina félagið sem er áhugasamt um leikmanninn, því Chelsea hefur einnig sýnt honum áhuga og var félagið reiðubúið að greiða 60 milljónir punda fyrir þjónustu hans í sumar, en Everton hafnaði tilboðinu.

Gordon á 18 mánuði eftir af samningi sínum við félagið og er því freistandi fyrir forráðamenn þess að selja hann, svo hann fari ekki frítt eftir að samningurinn rennur sitt skeið.  

mbl.is