Frá ensku meisturunum til þýsku meistaranna

Joao Cancelo er á leið til Þýskalands.
Joao Cancelo er á leið til Þýskalands. AFP/Oli Scarff

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Joao Cancelo er að ganga til liðs við Þýskalandsmeistara Bayern München frá Manchester City.

Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Cancelo, sem er 28 ára gamall, missti sæti sitt í byrjunarliði City á dögunum.

Hann hefur byrjað síðustu þrjá leiki liðsins á bekknum en hann hefur verið valinn í lið ársins í ensku úrvalsdeildinni undanfarin tvö tímabil.

Bakvörðurinn gekk til liðs við City frá Juventus sumarið 2019 fyrir rúmlega 27 milljónir punda en alls á hann að baki 154 leiki fyrir City þar sem hann hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur 22.

Cancelo mun ganga til liðs við Bayern á láni en þýska félagið er svo með forkaupsrétt á leikmanninum næsta sumar.

mbl.is