Mættur aftur til æfinga eftir stutt frí

Moises Caicedo í leik með Brighton á dögunum.
Moises Caicedo í leik með Brighton á dögunum. AFP/Glyn Kirk

Ekvadorski knattspyrnumaðurinn Moisés Caicedo, miðjumaður Brighton & Hove Albion, sneri í dag aftur til æfinga hjá liðinu eftir að hafa óskað eftir því að vera seldur til Arsenal um liðna helgi.

Arsenal, topplið ensku úrvalsdeildarinnar, lagði fram tvö tilboð í Caicedo í janúarglugganum, sem lokaði seint í gærkvöldi. Fyrra tilboð var um 60 milljónir punda en það síðara hljóðaði upp á 70 milljónir punda.

Í bæði skiptin sagði Brighton þvert nei, hann væri ekki til sölu. Eftir að síðara tilboðið barst bað Caicedo félagið um að selja sig til Arsenal í opnu bréfi á Twitter-aðgangi sínum.

Brighton ítrekaði að hann væri ekki til sölu og mæltist til þess að Caicedo tæki sér nokkurra daga frí og kæmi aftur til æfinga í dag, þegar búið væri að loka félagaskiptaglugganum.

Það gerði hann og mun nú að minnsta kosti ljúka tímabilinu með Brighton, en samningur hans rennur út sumarið 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert