Ég mun springa út hjá Liverpool

Darwin Núnez hefur skorað fimm mörk í ensku úrvalsdeildinni á …
Darwin Núnez hefur skorað fimm mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP/Glyn Kirk

Darwin Núnez, framherji enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er í miklu sambandi við Luis Suárez, fyrrverandi leikmann félagsins.

Núnez, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool frá Benfica síðasta sumar en enska félagið borgaði 85 milljónir punda fyrir sóknarmanninn.

Hann hefur skorað fimm mörk í 14 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir það að nýta ekki færin sín sem skildi.

„Þetta snýst allt um aðlögun,“ sagði Núnez í samtali við Sky Sports.

„Það var búið að vara mig við muninum á ensku og portúgölsku deildinni en ég hefði aldrei getað trúað því hversu mikill munur er á deildunum.

Þú þarft að vera sterkari hérna og samkeppnin er mikil. Ég er í miklu sambandi við Luis Suárez og hann þurfti líka sinn tíma til þess að aðlagast.

Ég átti ekki gott fyrsta tímabil með Benfica en svo sprakk ég út á mínu öðru tímabili. Ég er sannfærður um að ég muni springa út hjá Liverpool,“ bætti Núnez við.

mbl.is