Casemiro sá rautt en United vann – Brighton í sjötta sætið

Casemiro í baráttu við Tyrick Mitchell í dag.
Casemiro í baráttu við Tyrick Mitchell í dag. AFP/Lindsey Parnaby

Manchester United hafði betur gegn Crystal Palace, 2:1, þegar liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Casemiro fékk beint rautt spjald í síðari hálfleik en United hélt út.

Bruno Fernandes kom Man. United yfir á sjöttu mínútu með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Andre Marriner, dómari leiksins, ráðfærði sig við VAR-skjáinn þar sem sást að Will Hughes handlék knöttinn innan vítateigs.

Hinn sjóðheiti Marcus Rashford tvöfaldaði forystu heimamanna eftir rúmlega klukkutíma leik.

Casemiro fékk svo beint rautt spjald á 70. mínútu eftir að Marriner leit aftur á VAR-skjáinn í kjölfar handalögmála milli fjölda leikmanna. Casemiro tók Hughes hálstaki og fékk því réttilega reisupassann.

Skömmu síðar, tæplega stundarfjórðungi fyrir leikslok, minnkaði Jeffrey Schlupp muninn fyrir Palace þegar hann fékk skot Cheick Doucouré í sig og breytti þannig stefnu boltans.

Palace reyndi að knýja fram jöfnunarmark en Man. United tókst að halda út og sigla sigrinum í höfn.

Með sigrinum fór Man. United upp fyrir Newcastle United í þriðja sæti deildarinnar, þar sem Rauðu djöflarnir eru nú með 42 stig eftir 21 leik.

Dramatískt sigurmark Mitoma

Gott gengi Brighton & Hove Albion á tímabilinu hélt áfram þegar liðið vann nýliða Bournemouth með minnsta mun, 1:0.

Sigurmarkið skoraði Japaninn skemmtilegi, Kaoru Mitoma, þremur mínútum fyrir leikslok.

Þar með er Brighton komið upp í sjötta sæti deildarinnar með 34 stig.

Auðvelt hjá Brentford

Brentford var á leið upp í sjötta sætið áður en Mitoma skoraði sigurmark Brighton en liðið vann auðveldan 3:0-sigur á botnliði Southampton.

Ben Mee og Bryan Mbeumo skoruðu með stuttu millibili skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks og Mathias Jensen bætti svo við þriðja markinu tíu mínutum fyrir leikslok.

Brentford er í sjöunda sæti með 33 stig.

Markaveisla í Birmingham

Leicester City gerði afar góða ferð til Birmingham og lagði þar Aston Villa að velli, 4:2, í stórskemmtilegum leik.

Fimm af mörkunum sex komu í fyrri hálfleik. Ollie Watkins skoraði fyrir Villa snemma leiks auk þess sem Harry Souttar varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í sínum fyrsta leik fyrir Leicester.

James Maddison, Kelechi Iheanacho og Brasilíumaðurinn Tete skoruðu hins vegar fyrir Leicester, sá síðastnefndi í sínum fyrir leik fyrir liðið.

Dennis Praet innsiglaði svo sigurinn með fjórða marki Leicester ellefu mínútum fyrir leikslok.

Leicester fór með sigrinum upp af allra mesta hættusvæðinu í neðri hluta deildarinnar og er nú með 21 stig í 14. sæti, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert