City blandar sér í baráttuna

Jude Bellingham er gríðarlega eftirsóttur.
Jude Bellingham er gríðarlega eftirsóttur. AFP/Sascha Schuermann

Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur mikinn áhuga á enska miðjumanninum Jude Bellingham.

Það er Telegraph sem greinir frá þessu en Bellingham, sem er 19 ára gamall, er samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi.

Miðjumaðurinn er einn eftirsóttasti bitinn á markaðnum þessa dagana en talið er næsta víst að hann muni yfirgefa Dortmund í sumar.

Hann hefur verið sterklega orðaður við bæði Liverpool og Real Madrid en hann kostar í kringum 120 milljónir punda.

Það gæti freistað Bellinghams að fara til City enda hefur liðið verið afar sigursælt síðustu árin en Erling Braut Haaland, fyrrverandi liðsfélagi Bellinghams hjá Dortmund, gekk til liðs við City síðasta sumar.

mbl.is