Einn besti leikmaður Brighton skrifar undir nýjan samning

Solly March skorar mark gegn Liverpool í vetur.
Solly March skorar mark gegn Liverpool í vetur. AFP/Glyn Kirk

Enski vængmaðurinn Solly March, sem hefur verið einn allra besti leikmaður enska knattspyrnuliðsins Brighton á tímabilinu, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið til ársins 2026.

March hefur verið lykilmaður í Brighton-liðinu sem hefur spilað virkilega vel á tímabilinu og er í sjöunda sæti með 42 stig. Þá á liðið leiki til góða og gæti með sigri í þeim farið upp fyrir Liverpool, Newcastle og Tottenham, í fjórða sæti deildarinnar.

March hefur spilað 25 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og skorað í þeim sjö mörk, ásamt því að leggja upp önnur fjögur. Á ferlinum á hann 242 leiki fyrir Brighton en hann gekk til liðs við liðið árið 2011, þá 17 ára gamall, frá Lewes sem leikur í neðri deildum Englands.

mbl.is