Fyrirliði United má fara í sumar

Harry Maguire gekk til liðs við Manchester United sumarið 2019.
Harry Maguire gekk til liðs við Manchester United sumarið 2019. AFP/Cristina Quicler

Harry Maguire, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United, má yfirgefa félagið í sumar.

Það er Football Insider sem greinir frá þessu en Maguire, sem er þrítugur, gekk til liðs við United frá Leicester sumarið 2019 fyrir 80 milljónir punda.

Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi stjóri liðsins, gerði Maguire að fyrirliða félagsins í janúar 2020 en hann hefur fengið fá tækifæri með liðinu síðan Hollendingurinn Erik ten Hag tók við stjórnartaumunum síðasta sumar.

Maguire hefur aðeins byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en alls á hann að baki 168 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað sjö mörk.

Hann var á dögunum orðaður við stórlið París SG í Frakklandi en talið er að United vilji fá í kringum 30 milljónir punda fyrir varnarmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert