Nagelsmann opinn fyrir því að taka við Tottenham

Julian Nagelsmann.
Julian Nagelsmann. AFP/Christof Stache

Forráðamenn enska knattspyrnuliðsins Tottenham hafa áhuga á því að hefja viðræður við Julian Nagelsmann, fyrrverandi stjóra Bayern München, þrátt fyrir að Antonio Conte sé enn í starfi sem stjóri liðsins.

Hinn 35 ára gamli Nagelsmann var undir smásjá Daniel Levy, stjórnarformanns Tottenham, þegar Mauricio Pochettino var rekinn frá félaginu 2019 og Jose Mourinho ráðinn í staðinn. Þá reyndi félagið að fá hann til að taka við af Mourinho árið 2021, en hann tók þá við Bayern í staðinn.

Samkvæmt breskum miðlum hangir starf Conte hjá Tottenham á bláþræði og var jafnvel talið að Levy myndi nýta landsleikjahléið í að reka hann og finna arftaka. Conte er þó enn stjóri Tottenham en samningur hans rennur út í sumar.

mbl.is