Liverpool krefst skýringa

Cody Gakpo fagnar marki Liverpool sem var dæmt af og …
Cody Gakpo fagnar marki Liverpool sem var dæmt af og sýnir í leiðinni skurðina á bringunni sem hann fékk eftir spark frá Tyrone Mings. AFP/Peter Powell

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur skrifað samtökum atvinnudómara á Englandi, PGMOL, bréf þar sem útskýringa er krafist á tveimur dómum sem féllu í leik liðsins gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á laugardag.

Leiknum lauk með 1:1-jafntefli eftir að Roberto Firmino jafnaði metin seint í leiknum.

Undir lok fyrri hálfleiks vildi Liverpool fá dæmt rautt spjald á Tyrone Mings þegar hann fór af miklu afli með takkana í bringuna á Cody Gakpo svo hann lá þjakaður eftir með stærðarinnar skurði á bringunni og rifna keppnistreyju.

Dómari leiksins, John Brooks, gaf Mings hins vegar gult spjald og VAR-dómarinn Tony Harrington sá ekki ástæðu til þess að mæla með því Brooks að skoða atvikið nánar sjálfur.

Snemma í síðari hálfleik var svo mark dæmt af Gakpo vegna rangstöðu í aðdragandanum. Harrington bað Brooks þá að fara í VAR-skjáinn og meta hvort Ezri Konsa hafi leikið boltanum viljandi áður en Virgil van Dijk, sem var í rangstöðu en án þess að snerta boltann rétt á undan, gaf boltann á Ibrahima Konaté sem skaut að marki áður en Gakpo kom boltanum í netið.

Brooks mat það sem svo að Konsa hafi ekki leikið boltanum viljandi og dæmdi því markið af, sem Tómas Þór Þórðarson, Bjarni Þór Viðarsson og Margrét Lára Viðarsdóttir voru furðu lostin yfir í Vellinum á Símanum Sport í gær.

Liverpool þótti sem dómarar leiksins hafi komist að rangri niðurstöðu í báðum tilvikum og vill því fá skýringar á ákvörðunum þeirra frá PGMOL.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert