Þetta mun gera okkur betri

Erik ten Hag ásamt Casemiro eftir leik.
Erik ten Hag ásamt Casemiro eftir leik. AFP/Glyn Kirk

„Við erum niðurbrotnir,“ sagði Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, eftir 2:1-tap liðsins gegn Manchester City í úrslitaleik bik­ar­keppn­inn­ar í fót­bolta í dag.

„Við erum auðvitað vonsviknir, en ég er stoltur af mínu liði. Við stóðum okkur mjög vel, fengum á okkur tvö mjúk mörk en vorum með í leiknum. Það var mikill andi og mjög gott skipulag.

Þetta voru erfið mörk, þau voru svo aum og hægt að forðast. Þegar þú spilar gegn City og þú færð nánast engin færi á þig úr opnum leik ertu að gera eitthvað rétt en ef þú færð á þig svona mörk eru það mikil vonbrigði.

Liðið mitt sýndi seiglu, karakter og persónuleika. Við vitum að við eigum eitthvað í land en þetta mun gera okkur betri. Þetta var prófraun fyrir okkur, okkur tókst það ekki en við getum tekið margt jákvætt úr þessu inn í næsta tímabil,“ sagði ten Hag í samtali við BBC. 

mbl.is