Gylfi á lista yfir dýrustu leikmenn sögunnar

Gylfi Þór Sigurðsson er einn af dýrustu knattspyrnumönnum sögunnar.
Gylfi Þór Sigurðsson er einn af dýrustu knattspyrnumönnum sögunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gylfi Þór Sigurðsson er enn einn af 100 dýrustu knattspyrnumönnum allra tíma, en Everton greiddi Swansea 42 milljónir evra fyrir leikmanninn árið 2017.

Vefmiðilinn Goal birti í dag lista yfir 100 dýrustu leikmenn allra tíma og er Gylfi í 100. sæti listans. Íslendingurinn hefur ekki leikið knattspyrnu síðan hann var handtekinn í júlí fyrir tveimur árum, í máli sem að lokum var látið niður falla í apríl á þessu ári.

Gylfi lék 136 leiki með Everton í ensku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 25 mörk. Miðjumaðurinn er orðinn 33 ára og er enn óljóst hvort hann reimi á sig takkaskóna á nýjan leik, eða hvort ferlinum sé lokið.

Neymar er dýrasti leikmaður sögunnar, en París SG greiddi Barcelona 222 milljónir evra fyrir Brasilíumanninn árið 2017. Kylian Mbappé er í öðru sæti en Parísarfélagið greiddi 180 milljónir evra fyrir franska landsliðsmanninn.

Portúgalinn João Félix er í þriðja sæti. Spænska félagið Atlético Madríd borgaði Benfica 126 milljónir evra fyrir leikmanninn árið 2019. Hann lék með Chelsea seinni hluta þessa tímabils að láni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert