Skiptir um félag í ensku úrvalsdeildinni

Jefferson Lerma er orðinn leikmaður Crystal Palace.
Jefferson Lerma er orðinn leikmaður Crystal Palace. Ljósmynd/Crystal Palace

Kólumbíski knattspyrnumaðurinn Jefferson Lerma hefur skrifað undir þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið Crystal Palace. Hann kemur til félagsins frá Bournemouth, þar sem hann hefur verið undanfarin fimm tímabil.

Lerma, sem er 28 ára gamall, var í byrjunarliði Bournemouth í 37 af 38 leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og hefur verið lykilmaður þess síðan hann skipti til Englands frá Levante á Spáni árið 2018.

Miðjumaðurinn hefur leikið 33 landsleiki fyrir Kólumbíu og skorað í þeim eitt mark. Hann kemur í stað þeirra Luka Milivojevic og James McArthur, sem yfirgefa Palace í sumar.

mbl.is