Mourinho varð ekki við beiðni Fergusons

Sir Alex Ferguson og José Mourinho.
Sir Alex Ferguson og José Mourinho. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester Unitd, bað José Mourinho um að kaupa einn leikmann á meðan Portúgalinn stýrði United á árunum 2016 til 2018.

Þetta kom fram í heimildarþáttunum All or Nothing sem framleiddir eru af  Amazon Prime-streymisveitunni.

Ferguson var knattspyrnustjóri United á árunum 1986 til 2013 þegar hann lét af störfum og settist í helgan stein en hann stýrði United þrettán sinnum til sigurs í ensku úrvalsdeildinni.

Hentar Manchester United fullkomlega

„Sir Alex gaf mér eitt ráð á meðan ég var stjóri Manchester United,“ sagði Mourinho í heimildarþáttunum.

„Hann ráðlagði mér og sagði mér að kaupa Dele Alli sem þá var leikmaður Tottenham. Hann er með rétta hugarfarið og hvernig hann spilar hentar Manchester United fullkomlega.

Þessi leikmaður er Manchester United-leikmaður. Þú átt að kaupa Dele Alli sagði Ferguson við mig,“ bætti Mourinho við en ferill Allis hefur legið mikið niður á við undanfarin ár og er hann núna samningsbundinn Everton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert