Hafa ekki efni á að reka Pochettino

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea.
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea. AFP/Ben Stansall

Enska knattspyrnufélagið Chelsea getur ekki rekið Argentínumanninn Mauricio Pochettino úr starfi knattspyrnustjóra karlaliðsins nema með því að afla sér hárra upphæða fyrir sumarið.

Sæti Pochettinos, sem tók við Chelsea síðastliðið sumar, er tekið að hitna eftir slakan árangur á tímabilinu. Chelsea situr í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir töp fyrir Wolves og Liverpool í síðustu tveimur leikjum.

Daily Mail greinir frá því að ákveði Chelsea að reka Pochettino og þjálfarateymi hans myndi félagið þurfa að greiða þeim rúmar tíu milljónir punda.

Það kæmi Chelsea í vandræði hvað reglur ensku úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri varðar, þar sem liðið er þegar í vandræðum með að vera innan tilsettra marka á yfirstandandi tímabili.

Fyrr á yfirstandandi tímabili voru tíu stig dregin af Everton fyrir að brjóta gegn ofangreindum reglum tímabilin 2019-20, 2020-21 og 2021-22.

Þurfa að safna 100 milljónum punda

Þarf félagið að safna tæplega 100 milljónum punda með sölu leikmanna fyrir júní á þessu ári til þess að brjóta ekki gegn reglum deildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri á þessu tímabili.

Mögulegar greiðslur til Pochettino og þjálfarateymis hans myndu bætast við þá upphæð.

Leitaði Chelsea í því skyni leiða til þess að selja Conor Gallagher, Armando Broja og Trevoh Chalobah í janúarglugganum, þar sem sala á þremenningunum myndi skila félaginu hreinum hagnaði vegna þess að þeir eru uppaldir hjá því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert