Ricciardo á brautarmeti

Daniel Ricciardo á Red Bull ók allra manna hraðast við bílprófanir formúluliðanna í Barcelona í dag. Í leiðinni gerð hann sér lítið fyrir og setti brautarmet.

Ricciardo ók alls 165 hringi í dag, eða meira en nokkur annar ökumaður. Mældist sá hraðasti á 1:18,047 mínútum. Bætti hann áratugar gamalt met Felipe Massa, frá 2008. Þá er hringur Ricciardo meira en sekúndu betri en ráspólstími Lewis Hamilton (1:19,149)  í Spánarkappakstrinum í fyrra.

Fernando Alonso virtist ætla stefna hátt með 1:19,856 mínútna hring snemma dags, en fljótlega kom upp olíuleki í McLarenbílnum. Óhjákvæmilegt reyndist að skipta um vél og svo tímafrekt var það, að Alonso komst ekki aftur í brautina fyrr en 15 mínútur voru eftir.

Næstbesta tímanum náði Hamilton á Mercedes, 1:18,400 mín., og þriðja besta hringinn átti liðsfélagi hans Valtteri Bottas, 1:18,560 mín. Til samans óku þeir 172 hringi.

Sebastian Vettel á Ferrari náði fjórða besta tímanum, 1:19,541 mín., Brendon Hartley á Toro Roosa setti fimmta besta tímann, 1:19,823, en hann ók alls 118 hringi.

Tími Alonso frá í morgun reyndist sá sjötti besti yfir daginn allan. Landi hans Carlos Sainz á       Renault ók best á  1:20,042 mín., Romain Grosjean á Haas 1:20,237, Kimi Räikkönen á Ferrari á 1:20,242, Lance Stroll á Williams  á 1:20,349 , Nico Hülkenberg á Renault á 1:20,758 mín., Esteban Ocon á Force India á 1:20,805 mín. í alls 130 hringja akstri, Charles Leclerc á Sauber ók besta hring af 160 á  1:20,918 mín., og loks náði Sergej Sírotkín  á Williams 1:23,653 mín. 

mbl.is