Bottas átti lokaorðið

Valtteri Bottas á Mercedes Benz var í þessu að vinna ráspól rússneska kappakstursins í Sotsjí og þar með sjötta pólinn á ferlinum. Annar varð liðsfélagi hans Lewis Hamilton.

Hamilton var hraðskreiðastur í fyrstu tveimur lotum tímatökunnar og Bottas ætíð í öðru sæti og virtist enginn ætla að ógna þeim félögunum. Hamilton var örugglega á undan í báðum lotunum. Í lokalotunni, þeirri þriðju í heild, snerist dæmið Bottas í hag. Eftir fyrri tímaatlögu var hann aðeins fjórum þúsundustu úr sekúndu á undan Hamilton.

Enski ökumaðurinn byrjaði lokalotuna með meti á fyrsta brautarkafla af þremur en gerði því næst afdrifarík mistök og hætti atlögunni.

Sebastian Vettel á Ferrari hafnaði í þriðja sæti og liðsfélagi hans Kimi Räikkönen í því fjórða. Sóttu þeir jafnt og þétt á Mercedesmennina tímatökuna út í gegn en áttu þó aldrei alvöru möguleika að skáka þeim.

Í sætum fimm til tíu - í þessari röð - urðu Kevin Magnussen á Haas, Esteban Ocon á Force India, Chalres Leclerc á Sauber, Sergio Perez á Force India, Romain Grosjean á Haas og Marcus Ericssen á Sauber.

Vegna víta fyrir vélarskipti og þar með afturfærslu aftast á rásmarkið settu Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull enga tíma í annarri lotu. Bíla sína hreyfðu heldur ekki - og af sömu ástæðu - þeir Pierre Gasly á Toro Rosso, Carlos Sainz og Nico Hülkenberg hjá Renault.

mbl.is