Æfingu hætt vegna brunnloks

George Russell rétt fyrir æfinguna örlagaríku í Bakú.
George Russell rétt fyrir æfinguna örlagaríku í Bakú. AFP

Fyrstu æfingu kappaksturshelgarinnar í Bakú í Azerbajdzhan var aflýst eftir aðeins nokkrar mínútur. Losnaði brunnlok úr brautinni og stórskemmdi Williamsbíl  George Russell.

Botn Williamsbílsins er sagður ónýtur eftir óhappið en liðsstjóri Williams, Claire Williams, sagði það engan veginn ásættanlegt að lok á afrennslisrásum brautarinnar skuli losna og sogast upp í bílana.

Eftirlitsmenn kappakstursins áttu ekki annarra kosta völ en aflýsa æfingunni og leggjast í ítarlega brautarskoðun til að ganga úr skugga um hvort hætta sé á fleiri tilvikum sem þessum annars staðar í brautinni.

Lokið umrædda sogaðist upp úr brautinni er Charles Leclerc á Ferrari ók yfir það milli beygju tvö og þrjú. Russell kom rétt á eftir honum og komst ekki hjá því að aka yfir lokið. 

Það bætti svo ekki úr skák fyrir Williams er krani vörubíls sem sendur var eftir keppnisfáknum rakst í brú á bakaleiðinni með þeim afleiðingum að olía sprautaðist yfir Williamsbílinn.

Einungis ökumenn Ferrari höfðu sett brautartíma er æfingunni var aflýst. Ók Charles Leclerc ögn hraðar en Sebastian Vettel.

Í Malasíu árið 2017 varð álíka atvik er laust brunnlok sendi bíl Romain Grosjean á öryggisvegg á mikilli ferð. Var Haas-liðinu bættur bíllinn

Tæknimenn Williams meðfæra hinn skemmda bíl George Russell á æfingunno …
Tæknimenn Williams meðfæra hinn skemmda bíl George Russell á æfingunno í Bakú. AFP
mbl.is