Kostar álíka og Héðinsfjarðargöng

Gareth Bale
Gareth Bale AFP

Gareth Bale er nýjasti Galactico-inn í liði Real Madríd eða nýjasta ofurstjarnan. Real hefur þar með eytt milljarði punda síðan félagið vann Meistaradeildina síðast árið 2002. Samkvæmt fréttum frá Spáni skuldar Real 500 milljónir punda og er undir rannsóknarauga spænskra yfirvalda vegna lóðamála. Er þar sagt hafa svikið einn og annan í stjórnarkerfinu og skuldi skatta. En ekki er allt sem sýnist því ef allt er tekið með skuldar Real vissulega 500 milljónir en samkvæmt skilgreiningu UEFA á skuldum fótboltaliða skuldar Manchester United þannig milljónir punda og Arsenal sömuleiðis. Barcelona, AC Milan og fleiri stórlið eru einnig undir smásjá UEFA vegna skulda. Real er langstærsta félagið þegar kemur að tekjum og þénaði Arsenal þannig 191 milljón punda minna en Real á síðasta fjármagnstekjuári og Manchesterliðið þénaði 100 milljónum minna en risarnir frá Madríd.

Bankaskuldir Real eru sagðar vera 125 milljónir en liðið á 84 milljónir punda í lausafé (spurning hvort það hafi farið allt til Tottenham).

Fjögur ár í röð hefur Real verið á toppnum á lista Deloitte og þénaði félagið 513 milljónir evra á síðasta ári. Var það í fyrsta sinn sem lið fer yfir 500 milljóna evra markið. Tekjur Real hafa aukist um 10% á hverju ári síðustu fjögur ár.

Borgar sig á skömmum tíma

Trú Florentinos Perez er að stjörnurnar borgi sig sjálfar með sölu varnings tengds þeim og hefur það gengið upp hingað til. Ronaldo kostaði 80 milljónir punda en ári síðar hafði hann skilað 90 milljónum í kassa Real. Treyjur með nafninu hans seldust eins og heitar lummur og þannig seldust 1,2 milljónir treyja bara í Madríd með nafni hans aftan á.

En fótbolta- og markaðssérfræðingar hafa ekki jafnmikla trú á Bale og Real Madríd. Hann verður trúlega aldrei á HM með Wales, hann hefur aðeins einu sinni spilað í Meistaraeildinni og er frekar hæglátur maður. Fáir þekkja hann utan Bretlandseyja. Hann er t.a.m. aðeins með milljón fylgjendur á Twitter á meðan Ronaldo er með tuttugu milljónir. En markaðsöfl Madrídborgar munu nú fara á fullt að kynna Bale fyrir heimsbyggðinni.

Fjölskyldumaðurinn

Bale ók eitt sinn 200 mílur frá Lundúnum til Whitchurch í Wales, þar sem foreldrar hans búa og hann ólst upp, með þvottinn sinn þegar þvottavélin hans bilaði. Hann fékk einnig góðan mömmumat hjá Debbie, móður sinni, í leiðinni. Bale er fjölskyldumaður. Hann er ekki úti klukkan fjögur að drekka og verða sér til skammar. Ferill hans er nánast flekklaus gagnvart vandræðum. Hann hefur reyndar orð á sér fyrir að vera töluvert fyrir framan spegilinn fyrir leiki og eitt sinn sagði Harry Redknapp um hann: Það er eins og honum sé alveg sama hvort hann vinnur eða tapar – svo framarlega sem hann lítur vel út á vellinum. Ástæðan fyrir reiði Redknapps var að eitt sinn var Bale þrumaður niður á æfingu og þurfti á sjúkraþjálfara að halda. En áður en meðferðin hófst hoppaði Bale á öðrum fæti og sótti hárbandið sitt. Það var ekki fyrir Redknapp.

Bale hefur átt eina kærustu alla sína tíð, Emmu Rhys-Jones, og með henni á hann dótturina Ölbu Violet. Þegar hann skorar og gerir sitt fræga hjarta er það merki til Emmu og Ölbu. Þegar Bale skrifaði undir hjá Real var hann umkringdur fortíðarstjörnum Real Madrid, ráðgjöfum og öðrum sem vilja hafa áhrif á hans líf. En Bale sagði að þær mikilvægustu sem hefðu verið þarna í Madríd þennan dag væru Emma, Alba og Debbie, móðir hans.

Bloggað um fréttina