Vonast eftir spennandi kosningum

Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Sepp Blatter forseti FIFA. Myndin …
Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Sepp Blatter forseti FIFA. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar munu greiða Ali bin al Hussein atkvæði í forsetakjöri alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA á morgun í samræmi við tillögu forseta evrópska knattspyrnusambandsins UEFA. Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), segir það vitað að Sepp Blatter, forseti FIFA, standi sterkt í öðrum heimsálfum en hann vonist eftir spennandi kosningu á morgun. Breytingar sé þörf innan FIFA.

Fulltrúar aðildarríkja UEFA komu saman til fundar í Zürich í Sviss í hádeginu til þess að ræða stöðuna sem upp er komin innan FIFA eftir að sjö háttsettir stjórnendur sambandsins voru handteknir í viðamiklum lögregluaðgerðum í gær. Starfsmenn FIFA eru sakaðir um að hafa þegið tugi milljóna dollara í mútur um árabil. Kosið verður til embættis forseta FIFA á þingi þess á morgun en Blatter er þar í framboði í fimmta sinn. Eini mótframbjóðandinn er Ali, prins frá Jórdaníu.

„[Michel] Platini [forseti UEFA] hvatti Blatter til að stíga til hliðar í morgun. Hann neitaði því. Það var niðurstaða fundar knattspyrnusambanda Evrópu að styðja tillögu Platini að styðja prins Ali í kosningunum á morgun og kalla eftir nauðsynlegum breytingum í FIFA,“ segir Geir.

Spurður að því hvort að þetta þýði að allar Evrópuþjóðirnar muni greiða Ali atkvæði sitt segir Geir að ekki hafi farið fram handaupprétting á fundinum og kosningarnar á morgun séu leynilegar. Allir þeir sem töluðu á fundinum í dag hafi hins vegar talað til stuðnings prinsinum. Ísland muni greiða honum atkvæði sitt og sömuleiðis aðrar Norðurlandaþjóðir.

Vilja breytingar strax

UEFA krafðist þess í gær að kosningunum yrði frestað vegna fársins í kringum alþjóðasambandið en á fundinum í dag var ákveðið að falla frá því og leyfa kosningunum að fara fram á morgun.

„Enda er það von Evrópumanna og margra annarra að með því takist hugsanlega að gera breytingar og menn vilja þær strax. Prins Ali lýsti því yfir í ræðu á fundinum að hann hygðist aðeins bjóða sig fram til fjögurra ára þannig að það skapar svigrúm til breytinga,“ segir Geir.

Þjóðir Asíu og Afríku hafa stutt Sepp Blatter með ráðum og dáðum í gegnum tíðina, meðal annars vegna þeirra milljóna dollara sem hann hefur látið veita til þess að byggja upp innviði knattspyrnunnar í löndum þeirra. Margir spá því að Blatter muni því standa af sér storminn og ná endurkjöri á morgun þrátt fyrir þetta stærsta hneykslismál í sögu sambandsins.

„Það er vitað að Blatter hefur staðið mjög sterkt í öðrum heimsálfum en það er vonandi spennandi dagur framundan og vonandi stendur þingið að breytingum. Það er bara nauðsynlegt að gera breytingar eftir síðustu atburði,“ segir Geir.

Mótmælandi í gervi Sepp Blatter krefst þess að hann hverfi …
Mótmælandi í gervi Sepp Blatter krefst þess að hann hverfi úr embætti vegna meðferðar á farandverkamönnum sem undirbúa HM í Katar 2022. AFP
mbl.is
Loka