Kaflaskil hjá Didier Drogba

Didier Drogba hefur lokið sínum ferli sem atvinnumaður.
Didier Drogba hefur lokið sínum ferli sem atvinnumaður. AFP

Knattspyrnumaðurinn Didier Drogba spilaði sinn síðasta keppnisleik á ferlinum í nótt þegar Phoenix Rising tapaði 1:0 fyrir Louisville i úrslitaleik USL-bikarsins í Bandaríkjunum. Drogba er orðinn fertugur en hann hóf atvinnumannsferil sinn með Le Mans í Frakklandi.

Drogba gerði garðinn frægan með Marseille tímabilið 2003-2004 áður en hann samdi við Chelsea þar sem hann spilaði tæplega 350 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim 157 mörk. Hann vann fjórtán titla með Chelsea en hann gekk til liðs við félagið á nýjan leik árið 2014.

Hann lék 104 landsleiki fyrir Fílabeinsströndina þar sem hann skoraði 65 mörk en undanfarin tvö ár hefur hann spilað með Phoenix Rising en hann er einn af eigendum félagsins. 

mbl.is