Rúnar Alex missti af langþráðum sigri

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. mbl.is/Eggert

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, var í fyrsta sinn á tímabilinu ekki í leikmannahópi Dijon í kvöld þegar liðið mætti botnliði Guingamp í frönsku 1. deildinni.

Rúnar Alex missti af leiknum vegna veikinda, að því er fram kom á Twitter-síðu Dijon. Frakkinn Bobby Allain stóð því í markinu.

Dijon vann leikinn 2:1, þrátt fyrir að hafa misst mann af velli með rautt spjald á 72. mínútu, og komst upp í 16. sæti með 16 stig. Liðið hafði leikið 12 deildarleiki í röð án sigurs. Guingamp er með 8 stig, langneðst í deildinni.

Rúnar Alex hafði leikið alla 15 leiki Dijon á tímabilinu sem er hans fyrsta í Frakklandi eftir komuna frá Nordsjælland í Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert