Þjálfarinn hraunar yfir Kolbein

Kolbeinn Sigþórsson í búningi Nantes.
Kolbeinn Sigþórsson í búningi Nantes. AFP

Framherjinn Kolbeinn Sigþórsson er enn í snúinni stöðu hjá félagsliði sínu Nantes í Frakklandi. Nú hefur hann heldur betur fengið það óþvegið frá Vahid Halilhodzic, þjálfara liðsins, sem tjáði sig um stöðu hans á blaðamannafundi í gær.

Kolbeinn hefur ekki spilað mínútu með liðinu á leiktíðinni en var engu að síður í íslenska landsliðshópnum í haust. Þá skoraði hann meðal annars mark úr vítaspyrnu í 2:2 jafntefli gegn Katar í vináttuleik. Það er nokkuð sem Halilhodzic botnar ekkert í, en franski miðillinn Ouest France greinir frá.

„Hann [Kolbeinn] hefur ekki spilað af alvöru í fótbolta í tvö ár, en er samt valinn til þess að spila [fyrir landsliðið]. Þegar ég tók við var mér sagt að ég gæti ekki treyst á hann,“ sagði Halilhodzic, en hann tók við liðinu í október.

„Ég hef rætt við hann tvisvar. Hann vildi fá að æfa með liðinu, en ég vil að hann sé í varaliðinu. Hann er mikið vandamál fyrir félagið. Hann hleypur ekki og æfir bara þegar honum hentar. Það væri hægt að skrifa heila bók um þetta ástand, en ég get ekki bara hugsað um að leysa þetta vandamál með [Kolbein] Sigþórsson,“ sagði Halilhodzic.

Kolbeinn tjáði sig um stöðu sína við Morgunblaðið í október, þar sem hann sagði að forseti félagsins bannaði honum að æfa með liðinu.

mbl.is