„Hefðum átt að þrýsta meira á Sala“

Mynd af Sala fyrir utan æfingasvæði Nantes. Þar hefur fólk …
Mynd af Sala fyrir utan æfingasvæði Nantes. Þar hefur fólk komið með blóm og kveikt á kertum. AFP

Um fátt er meira rætt í knattspyrnuheiminum þessa stundina en hvarf Emiliano Sala, nýjasta leikmanns Cardiff í ensku úrvalsdeildinni. Ken Choo, framkvæmdastjóri Cardiff, var í tilfinningaríku útvarpsviðtali í dag þar sem hann tjáði sig um stöðu mála.

„Þetta er mjög erfitt en við erum að reyna að halda utan um stöðuna. Félagið er að gera hvað það getur til þess að huga að fjölskyldu hans og halda henni upplýstri,“ sagði Choo og undirstrikaði að andrúmsloftið innan liðsins sé þungt. Hann hitti Aron Einar Gunnarsson og hina leikmenn liðsins í gær og ræddi við þá um stöðu mála.

Choo tjáði sig einnig um flugvélina sem leitað er að, en það hefur vakið furðu margra að hafa lagt í ferð frá Nantes í Frakklandi, yfir Ermarsundið og til Cardiff í Wales í lítilli eins hreyfils vél. Eins og mbl.is hefur greint frá í dag hafnaði Sala þeirri ferðatilhögun sem Cardiff bauð honum. Þess í stað fékk hann umboðsmann til þess að skipuleggja beint flug.

„Við áttum engan þátt í því að bóka flugið. Okkar starfsfólk sem venjulega sér um þessi mál fyrir leikmanninn bauð honum flug frá París, en hann sagði því að hafa engar áhyggjur. „Ég er með aðrar ráðstafanir og sé ykkur á æfingasvæðinu á þriðjudaginn,“ á hann að hafa sagt,“ sagði Choo.

Sala bað hins vegar um að fulltrúi Cardiff myndi sækja hann á flugvöllinn, en vélin átti að lenda í Cardiff um klukkan 21 á mánudagskvöld. Hún hvarf af ratsjám um klukkan 20.30 og leit hefur enn engan árangur borið.

„Við hefðum átt að þrýsta meira á hann að fara eftir því sem við buðum honum. Við vorum í sambandi við hann út af þessu, en fannst mikilvægt að virða óskir hans. Við vildum ekki að hann væri ósáttur við skipulagninguna,“ sagði Choo.

Þá upplýsti hann í viðtalinu að forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar myndu ekki gefa Cardiff lengri frest en til mánaðamóta til þess að finna nýjan framherja í stað Sala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert