Vandræðalegt tap hjá Real Madríd

Leikmenn Girona fagna í dag.
Leikmenn Girona fagna í dag. AFP

Real Madríd tapaði mjög óvænt fyrir Girona á heimavelli í spænsku 1. deildinni í fótbolta í dag, 2:1. Real Madríd komst yfir í fyrri hálfleik en Girona sneri taflinu við í seinni hálfleik. 

Brasilíumaðurinn Casemiro kom Real yfir á 25. mínútu með eina marki fyrri hálfleiksins, en Real var mun sterkari aðilinn allan hálfleikinn. Eusebio, þjálfari Girona, gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik og tókst afar vel til. 

Á 65. mínútu var staðan orðin 1:1 eftir að Christian Stuani jafnaði með marki úr vítaspyrnu og tíu mínútum síðar skoraði Portu og kom Girona yfir. Í stað þess að jafna leikinn enduðu leikmenn Real manni færri þar sem Sergio Ramos fékk sitt annað gula spjald í uppbótartíma. 

Sigurinn var sá fyrsti í deildinni hjá Girona síðan 25. nóvember og lék liðið 10 leiki í röð án þess að vinna, fyrir leik dagsins. Girona er nú í 15. sæti með 27 stig og Real í þriðja sæti með 45 stig. 

mbl.is