Lewandowski fúll út í þjálfarann

Robert Lewandowski og Jürgen Klopp í faðmlögum eftir leikinn.
Robert Lewandowski og Jürgen Klopp í faðmlögum eftir leikinn. AFP

Pólski framherjinn Robert Lewandowski, leikmaður þýska meistaraliðsins Bayern München, skaut á þjálfara sinn eftir 3:1 tap Bayern á heimavelli gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Bayern féll þar með úr leik í Meistaradeildinni og í fyrsta skipti í átta ár er liðið ekki í átta liða úrslitum keppninnar.

Lewandowski var ekki sáttur við leikaðferð þjálfara sinna og fannst hún allt of varfærin en Liverpool hafði tögl og hagldir allan tímann í München í gærkvöld og vann sanngjarnan sigur.

„Í fyrri leiknum tókum við enga áhættu að reyna að sækja og skora mark og í þessum leik þá reyndum við ekki að sækja og reyna að skora. Við fengum ekki mikið af færum og það var vandamálið. Við vorum að spila á heimavelli en þetta var ekki okkar leikur í dag og þess vegna vann Liverpool okkur. Ég er reiður því ég veit að við hefðum átt að gera betur,“ sagði Lewandowski.

mbl.is