„Hazard er á síðasta séns“

Eden Hazard hefur ekki náð að heilla marga á Spáni …
Eden Hazard hefur ekki náð að heilla marga á Spáni í upphafi leiktíðar. AFP

Spænskir fjölmiðlar virðast vera að missa þolinmæðina gagnvart Eden Hazard, sóknarmanni spænska knattspyrnuliðsins Real Madrid. Hazard kom til Real Madrid frá Chelsea síðasta sumar en Belginn hefur ekki heillað marga frá því hann kom á Santiago Bernabéu. 

Á forsíðu spænska dagblaðsins Marca í dag er mynd af Hazard með undirskriftinni „Á síðasta séns“. Sóknarmaðurinn hefur byrjað þrjá leiki í spænsku 1. deildinni á þessari leiktíð þar sem hann hefur skorað eitt mark og lagt upp eitt.

Spænskir fjölmiðlar hafa kallað eftir því að Hazard stígi upp gegn Galatasaray í Meistaradeildinni á morgun þegar Real Madrid sækir Tyrkina heim. Real Madrid er með eitt stig eftir fyrstu tvo leiki sína í Meistaradeildinni og þarf nauðsynlega á sigri að halda.

mbl.is