Hjá okkur þarf allt að ganga upp

Helgi Kolviðsson á blaðamannafundi í Finnlandi á dögunum.
Helgi Kolviðsson á blaðamannafundi í Finnlandi á dögunum. AFP

Helgi Kolviðsson, þjálfari karlalandsliðs Liechtenstein í knattspyrnu, hefur lokið fyrstu undankeppni sinni með liðið. „Fyrir mig hefur það verið frábær reynsla að koma inn í þetta hérna og fá að kynnast öðrum vinnuaðferðum. Ég hef kynnst því hvernig þeir hafa hagað þessu í gegnum tíðina og er búinn að mynda mér skoðun á því hvernig best sé að vinna til framtíðar. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni,“ sagði Helgi þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær.

Helgi er með samning út næsta ár og verður því áfram við stjórnvölinn hjá Liechtenstein. Hann nær að koma heim til Íslands á næstunni og heilsa upp á sitt fólk en til stendur hjá honum að heimsækja Norðurlandaþjóðirnar með fulltrúum Ólympíusambandsins í Liechtenstein.

Liðið tapaði á sunnudaginn 0:3 fyrir Bosníu. Þessi 34 þúsund manna þjóð náði í tvö stig í riðlinum með því að gera tvö jafntefli en tapaði átta leikjum. Var liðið í riðli með knattspyrnustórþjóðinni Ítalíu en einnig Finnlandi, sem fer nú í lokakeppni í fyrsta skipti.

Lögga í miðverðinum

„Það er allt annað að þjálfa Liechtenstein heldur en Ísland enda er þjóðin tíu sinnum fámennari en Íslendingar. Liechtenstein var með tólf til sextán atvinnumenn í liðinu þegar það vann Ísland 3:0 í október 2007 en nú eru þeir ekki nema fjórir. Landsliðsmennirnir eru því flestir í námi eða fullri vinnu. Miðvörðurinn hjá mér er lögreglumaður og svo er einnig kennari í liðinu. Þeir misstu eiginlega úr eina kynslóð ef svo má segja. Hér er þó fullt af ungum strákum og unnið hefur verið í að móta þá sem leikmenn með yngri flokkunum og skólunum,“ útskýrði Helgi, sem er á vissan hátt að móta nýtt lið hjá Leichtenstein. 

Nánar er rætt við Helga í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert