Tilbúinn að mæta Manchester United

Rúnar Már Sigurjónsson í leik Íslands og Frakklands 11. október. …
Rúnar Már Sigurjónsson í leik Íslands og Frakklands 11. október. Hann hefur ekki spilað síðan vegna meiðsla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Már Sigurjónsson landsliðsmaður í knattspyrnu hefur náð sér af meiðslunum sem hann varð fyrir í landsleik Íslands og Frakklands á Laugardalsvellinum 11. október og getur spilað með liði sínu, Astana, þegar það  tekur á móti Manchester United í Evrópudeildinni á morgun.

Rúnar sagði við mbl.is í dag að hann hefði æft af fullum krafti síðustu vikuna og væri tilbúinn í slaginn. Meiðslin urðu til þess að hann missti af fimm síðustu leikjum Astana í deildinni í Kasakstan, og báðum leikjum liðsins við AZ Alkmaar í Evrópudeildinni, auk landsleikjanna við Andorra, Tyrkland og Moldóvu.

„Það er mjög góð stemning fyrir leiknum hérna í Astana og löngu orðið uppselt. Við ættum að eiga ágætismöguleika því United mætir með algjört varalið en því miður er svolítið um meiðsli í okkar hópi. Þetta verður hörkuleikur,“ sagði Rúnar við mbl.is.

Leikið er á þjóðarleikvanginum í Astana, eða Nur-Sultan eins og borgin heitir núna, en þar er 10-12 stiga frost um þessar mundir og því búið að draga þakið yfir hann fyrir nokkru síðan. Leikurinn verður því háður í 15 stiga hita en þetta er sami völlur og Ísland lék á gegn Kasakstan í undankeppni EM í marsmánuði árið 2015. 

Rúnar lék allan tímann í fyrri leiknum við Manchester United á Old Trafford í september en þar vann enska liðið nauman 1:0 sigur frammi fyrir 50 þúsund áhorfendum. Mason Greenwood skoraði sigurmarkið 20 mínútum fyrir leikslok.

United er taplaust í riðlinum með 10 stig úr fjórum leikjum og er öruggt með sæti í 32ja liða úrslitum. AZ Alkmaar, sem er með 8 stig, og Partizan Belgrad, sem er með 4 stig, berjast um annað sætið og mætast í Alkmaar í dag. AZ nægir þar jafntefli en Albert Guðmundsson er fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Astana er án stiga í riðlinum því liðið hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum. Rúnar hefur skorað eina mark liðsins í riðlakeppninni, en hann skoraði með glæsilegu skoti utan vítateigs í 1:2 ósigri Astana á heimavelli gegn Partizan Belgrad í byrjun október.

Rúnar og félagar enda tímabilið í Belgrad, höfuðborg Serbíu, því þar mæta þeir Partizan í lokaumferðinni 12. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert