Leikmaður sem allir þjálfarar vilja

Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.

Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, var valinn leikmaður umferðarinnar hjá Kicker eftir stórleik fyrir Darmstadt í þýsku B-deildinni um helgina. Nú hefur heimasíða deildarinnar birt viðtal við fyrrverandi þjálfara Victors sem hrósar íslenska víkingnum í hástert.

„Victor er tákngervingur leikmannsins sem allir þjálfarar vilja þjálfa,“ sagði Ludovic Magnin, þjálfari FC Zürich, í viðtali sem birt er á heimasíðu þýsku B-deildarinnar. Guðlaugur var fyrirliði svissneska liðsins um tíma og ljóst að Magnin hefur mikið álit á honum.

„Enginn leikmaður er jafn mikill atvinnumaður og enginn tekur hverri einustu æfingu og hverjum einasta leik jafn alvarlega og Victor. Hann er alltaf hungraður og þessi einbeitti vilji gerir hann óstöðvandi.“

Victor skoraði glæsilegt mark fyrir Darmstadt sem vann 4:0-sigur á St. Pauli á laugardaginn og var hann valinn í lið umferðarinnar í sjötta sinn á tímabilinu. „Við söknum hans allir hér í Zürich,“ sagði Magnin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert