Valinn besti leikmaður umferðarinnar

Guðlaugur Victor Pálsson gerir það gott með Darmstadt.
Guðlaugur Victor Pálsson gerir það gott með Darmstadt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er enn og aftur í liði vikunnar hjá Kicker eftir 27. umferð þýsku B-deildarinnar, og til viðbótar er hann útnefndur besti leikmaður umferðarinnar.

Victor skoraði glæsilegt mark fyrir Darmstadt þegar liðið vann St. Pauli, 4:0, á laugardaginn. Kicker velur hann í lið umferðarinnar í sjötta skipti á tímabilinu en Darmstadt á þrjá leikmenn af ellefu í úrvalsliðinu að þessu sinni.

Kicker segir að Victor hafi með frammistöðu sinni á laugardaginn undirstrikað hversu mikill leiðtogi hann sé í liði Darmstadt. Íslendingurinn hafi ekki bara verið öflugur sem varnartengiliður, heldur hafi hann átt þátt í fyrsta markinu og skorað það fjórða. 

mbl.is