Komnir í þriðja sætið eftir stórsigur

Arnór Sigðurðsson og Hörður Björgvin Magnússon voru í sigurliði í …
Arnór Sigðurðsson og Hörður Björgvin Magnússon voru í sigurliði í dag. Ljósmynd/CSKA Moskva

Íslendingaliðið CSKA frá Moskvu er komið í þriðja sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir stórsigur gegn Orenburg á útivelli í dag, 4:0.

Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson voru í byrjunarliði CSKA og spilaði Hörður allan leikinn en Arnóri var skipt af velli þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

CSKA fór með sigrinum uppfyrir bæði Krasnodar og Rostov sem eru í fjórða og fimmta sæti en eiga bæði leik til góða á Moskvuliðið. Gríðarlega hörð barátta er framundan um þriðja sætið sem gefur keppnisrétt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Zenit er þegar orðið meistari þegar þrjár umferðir eru eftir og er langefst með 65 stig. Lokomotiv Moskva er með 49 stig, CSKA 46, Krasnodar 45 og Rostov 43 stig en síðan er langt bil niður í næstu lið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert