Smá hiksti í Juventus

Cristiano Ronaldo tókst ekki að skora í kvöld.
Cristiano Ronaldo tókst ekki að skora í kvöld. AFP

Juventus mistókst að ná níu stiga forystu á toppi ítölsku efstu deildarinnar í knattspyrnu í kvöld eftir að liðið gerði 3:3-jafntefli gegn Sassuolo á útivelli. Ítölsku meistararnir hafa ekki unnið í síðustu þremur leikjum sínum.

Danilo og Gonzalo Higuaín komu gestunum í tveggja marka forystu á fyrstu 12 mínútum leiksins en Filip Duricic minnkaði muninn fyrir heimamenn eftir um hálftíma leik. Domenico Berardi jafnaði svo metin snemma í síðari hálfleik og á 54. mínútu voru heimamenn búnir að snúa taflinu við þegar Francesco Caputo kom þeim yfir.

Alex Sandro bjargaði að lokum stigi fyrir meistarana með marki á 64. mínútu en Ronaldo tókst ekki að skora í kvöld. Portúgalinn var búinn að skora í sex leikjum í röð fyrir kvöldið.

Þá mistókst Lazio að endurheimta annað sætið af Atalanta eftir að hafa gert markalaust jafntefli gegn Udinese. Juventus er á toppnum með 77 stig, Atalanta í öðru með 70 og Lazio er með 69 stig þegar fimm leikir eru eftir.

mbl.is