Ronaldo neitaði að vera í sóttkví og fór heim

Cristiano Ronaldo var mættur til leiks með landsliði Portúgals og …
Cristiano Ronaldo var mættur til leiks með landsliði Portúgals og lék gegn Spáni þó hann ætti að vera í sóttkví á Ítalíu. AFP

Cristiano Ronaldo fór fyrir hópi leikmanna ítalska knattspyrnuliðsins Juventus sem sættu sig ekki  við að vera settir í sóttkví með liðinu síðasta laugardag og hafa nú verið tilkynntir til ríkissaksóknara á Ítalíu.

Leikmenn Juventus voru settir í sóttkví á hóteli félagsins, rétt við æfingasvæði þess í Tórínó, eftir að tveir úr starfsliði félagsins greindust með kórónuveiruna á laugardaginn. Leik Juventus og Napoli sem fram átti að fara á sunnudagskvöldið var frestað.

Gazzetta dello Sport greinir frá því að Ronaldo hafi neitað að vera um kyrrt á hótelinu í nokkra daga því það hefði komið í veg fyrir að hann kæmist til að spila vináttulandsleik með Portúgölum gegn Spánverjum á miðvikudaginn.

Ronaldo og liðsfélagar hans höfðu gengist undir tvær skimanir en samkvæmt reglum ítalska knattspyrnusambandsins áttu þeir eftir að gangast undir eina í viðbót áður en þeim yrði leyft að yfirgefa hótelið.

Samkvæmt blaðinu mótmælti Ronaldo þessu harðlega við stjórnarmenn félagsins, að liðsfélögum sínum viðstöddum, og ákvað að fara heim. Hann eyddi nóttinni hjá fjölskyldu sinni en hélt síðan til móts við portúgalska landsliðið daginn eftir.

Nokkrir leikmanna liðsins fylgdu fordæmi hans, svo sem Paulo Dybala, Juan Cuadrado, Danilo, Rodrigo Bentancur og Merih Demiral, sem fóru til móts við sín landslið en markvörðurinn reyndi Gianluca Buffon hélt heimleiðis.

Framferði leikmannanna var þegar í stað tilkynnt til heilbrigðisyfirvalda, sem staðfestu að nöfn leikmannanna sem rufu sóttkvína yrðu send til ríkissaksóknara.

Aðrir leikmenn liðsins héldu kyrru fyrir á hótelinu til miðvikudags þegar sóttkvínni lauk og þeim var leyft að halda heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert