Þetta var verðskuldað tap

Jürgen Klopp horfir á sína menn í kvöld.
Jürgen Klopp horfir á sína menn í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir liðið hafa verðskuldað að tapa 0:2 gegn Atalanta í D-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

 „Þetta var verðskuldað tap í erfiðum leik. Dómarinn flautaði ekki mikið og það gerir leikinn enn erfiðari fyrir bæði lið. Það var þvílíkt mikill ákafi í leiknum og þú verður að geta slakað á inn á milli,“ sagði Klopp í samtali við BT Sport eftir leik.

„Þetta var ekki góður leikur. Hvorugt lið skapaði sér mikið þar til þeir skoruðu mörkin sín,“ bætti hann við.

Klopp sagði Liverpool ekki hafa fundið sig almennilega í leiknum. „Þegar fyrri hálfleiknum er lokið þá róarðu venjulega niður tempóið, en fyrir suma leikmenn sem hafa ekki spilað í einhvern tíma var þetta aðeins of mikill ákafi. Við fundum okkur ekki í leiknum.“

„Við áttum okkar augnablik en engin alvöru færi. Þetta getur líka komið fyrir önnur lið,“ sagði hann einnig.

Klopp beindi síðan spjótum sínum að BT Sport, en leikur Brighton & Hove Albion og Liverpool mun fara fram í hádeginu næstkomandi laugardag. „Þið viljið að við spilum leik klukkan 12:30 á laugardaginn, það er nærri því glæpsamlegt. Það hefur ekkert með úrslit kvöldsins að gera, en ég óska ykkur til hamingju.“

Að lokum prísaði Klopp sig sælan að enginn leikmanna hans hafi meiðst í leiknum. „Tveir þumlar upp, engin meiðsli og við höldum áfram.“

mbl.is