Wales og Sviss skildu jöfn

Gareth Bale, fyrirliði Wales, með boltann í leiknum í dag.
Gareth Bale, fyrirliði Wales, með boltann í leiknum í dag. AFP

Wales og Sviss gerðu 1:1 jafntefli á Ólympíuleikvanginum í Bakú í Aserbaísjan í A-riðlinum á EM í knattspyrnu karla í dag. Svisslendingar voru með talsverða yfirburði í leiknum en fóru oft illa með góð færi.

Fyrri hálfleikur var ansi fjörugur þrátt fyrir markaleysi. Kieffer Moore, framherji Wales, komst nálægt því að skora fyrsta mark leiksins eftir stundarfjórðung þegar hann skallaði að marki eftir flotta fyrirgjöf Daniel James en Yann Sommer varði vel í horn.

Haris Seferovic, framherji Sviss, var svo í tvígang nálægt því að skora en í fyrra skiptið, á 41. Mínútu, skaut hann naumlega framhjá samskeytunum eftir laglegan snúning og í síðara skiptið, í uppbótartíma fyrri hálfleiks, skaut hann yfir úr dauðafæri eftir góðan undirbúning Breel Embolo.

Síðari hálfleikur var hins vegar ekki gamall þegar Sviss tók forystuna. Á 49. mínútu tók Xherdan Shaqiri hornspyrnu frá hægri og Embolo skallaði boltann í netið, 0:1.

Hann var nálægt því að tvöfalda forystu Sviss á 66. mínútu þegar skot hans úr góðu færi fór rétt framhjá markinu.

Það var hins vegar Wales sem skoraði næsta mark. James tók þá stutta hornspyrnu á Joe Morrell, sem gaf fyrir á Moore og að þessu sinni rataði skalli hins stóra og stæðilega framherja í netið, 1:1.

Á 85. mínútu virtust Svisslendingar vera að sigla öllum stigunum þremur í höfn þegar Mario Gavranovic skoraði.

Hann var þá nýkominn inn á sem varamaður en eftir að VAR skoðaði markið gaumgæfilega var það dæmt af vegna rangstöðu.

Jafntefli varð því niðurstaðan og eru bæði liðin með 1 stig í A-riðlinum. Ítalía er á toppi riðilsins eftir 3:0 sigur gegn Tyrklandi í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert