Freyr sagður taka við Lyngby í vikunni

Freyr Alexandersson er nálægt því að taka við Lyngby.
Freyr Alexandersson er nálægt því að taka við Lyngby. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson mun taka við stjórnartaumunum hjá danska B-deildarliðinu Lyngby í vikunni og skrifa undir tveggja ára samning.

Þetta fullyrðir danska dagblaðið B.T. og kveðst hafa heimildir fyrir því að tilkynnt verði formlega um ráðninguna í vikunni.

Freyr var síðast aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar hjá Al-Arabi í Katar og var þar á undan aðstoðarþjálfari Eriks Hamréns hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu.

B.T. greinir frá því að Freyr hafi með sýn sinni á fótbolta og metnað náð að sannfæra stjórnendur Lyngby um að hann sé rétti maðurinn til að koma liðinu aftur upp í dönsku úrvalsdeildina, þaðan sem liðið féll á liðnu tímabili.

Þá hafi persónutöfrar Freys og vilji til þess að þróa hæfileika leikmanna sömuleiðis orðið til þess að hann hafi skotið öðrum, þekktari nöfnum á blaði, ref fyrir rass.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert