Leikmenn slógust við lögreglu

Leikmenn Boca voru allt annað en sáttir við dómara leiksins.
Leikmenn Boca voru allt annað en sáttir við dómara leiksins. AFP

Leikmenn argentínska knattspyrnuliðsins Boca Juniors slógust við brasilíska lögreglumenn eftir leik við Atlético Mineiro í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Suður-Ameríku í nótt. Leikið var í Belo Horizonte í Brasilíu.

Globoesporte greinir frá því að leikmenn Boca hafi reynt að komast inn í búningsklefa Atlético Mineiro í leikslok þar sem dómarar leiksins höfðu komið sér fyrir til að forðast þá.

Lögreglumenn sprautuðu vatni á leikmennina á meðan þeir reyndu að komast inn í búningsklefann, við litla hrifningu þeirra. Leikmennirnir brugðust við með að veitast að lögreglumönnum og kasta í þá aðskotahlutum.

Leikmenn liðanna slógust einnig sín á milli eftir leik en liðsmenn Boca voru allt annað en sáttir við dómara leiksins, sem dæmdi tvö mörk af Boca í einvíginu.

Þá slógust þjálfarar beggja liða við dómarann og voru í kjölfarið reknir af bekknum með rautt spjald. Báðum leikjum einvígisins lauk með markalausum jafnteflum og vann Atlético Mineiro að lokum í vítakeppni.

mbl.is