Bale í viðræðum við Cardiff

Gareth Bale í leik með velska landsliðinu á dögunum.
Gareth Bale í leik með velska landsliðinu á dögunum. AFP/Geoff Caddick

Forsvarsmenn velska knattspyrnuliðsins Cardiff City, sem leikur í ensku B-deildinni, hafa átt í viðræðum við fulltrúa Gareth Bale, fyrirliða velska landsliðsins, sem er án félags eftir að hafa yfirgefið Real Madríd.

Fulltrúar Bales hafa staðfest í samtali við BBC Sport í Wales að þeir eigi í viðræðum við Mehmet Dalman, stjórnarformann Cardiff, um þann möguleika að Bale semji við félagið.

Ekkert er þó í hendi sem stendur þar sem umboðsmenn Bales eiga í viðræðum við fjölda félaga.

Bale er fæddur og uppalinn í Cardiff en hefur þó aldrei leikið með liðinu.

Hann lék með Real Madríd í níu tímabil og vann þar Meistaradeild Evrópu fimm sinnum. Samningur hans er að renna út og því er honum frjálst að ræða við önnur félög.

Fyrrum félag hans á Englandi, Tottenham Hotspur, er sagt áhugasamt um að fá Bale aftur og þá hefur hann verið orðaður við lið í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

mbl.is