Aron úr leik næstu vikurnar

Aron Bjarnason, til vinstri, í leik Íslands og Svíþjóðar á …
Aron Bjarnason, til vinstri, í leik Íslands og Svíþjóðar á Algarve fyrr í þessum mánuði. Ljósmynd/Alex Nicodim

Aron Bjarnason, leikmaður Sirius í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, verður frá æfingum og keppni næstu fimm til sex vikurnar.

Aron, sem lék sína fyrstu tvo A-landsleiki fyrir Íslands hönd gegn Eistlandi og Svíþjóð í þessum mánuði, þurfti að fara í smávægilega aðgerð á fæti en félagið tilkynnti um þetta í dag. Endurhæfingin er miðuð við að hann verði kominn á fulla ferð þegar keppni hefst í sænsku úrvalsdeildinni þann 1. apríl.

Aron er að hefja sitt þriðja tímabil með Sirius. Hann missti nánast alveg af tímabilinu 2021 vegna meiðsla, lék aðeins tvo leiki í deildinni undir lokin, en á síðasta ári spilaði Aron alla 30 leiki Sirius í úrvalsdeildinni og skoraði fjögur mörk.

mbl.is