Þetta hefur ekki verið nein sólarferð

Þegar íslensku keppendurnir höfðu lokið þátttöku sinni á Ólympíuleikunum síðasta þriðjudagskvöld var afskiptum Íslendinga af þeim ekki lokið. Handknattleiksdómararnir Gunnar Viðarsson og Stefán Arnaldsson voru að fram á föstudag og þeir náðu lengst allra, komust í undanúrslit. Þeir Gunnar og Stefán dæmdu einn af stórleikjum handknattleikskeppninnar í karlaflokki, viðureign Króata og Ungverja í undanúrslitum, og voru orðaðir við úrslitaleikina sjálfa þó svo ekki hafi orðið af því að þeir hlytu þann heiður.

Gunnar og Stefán dæmdu í fyrsta skipti á Ólympíuleikum en þetta var þeirra fimmta stórmót saman á fjórum árum. Áður hafa þeir dæmt á tveimur heimsmeistaramótum karla og tveimur heimsmeistaramótum kvenna. Leikur Króata og Ungverja var þeirra þriðji virkilegi stórleikur á slíku móti en á síðasta ári dæmdu þeir úrslitaleik kvenna milli Ungverjalands og Frakklands og einnig undanúrslitaleik Spánar og Króatíu á HM karla.

Þegar Morgunblaðið spjallaði við þá Gunnar og Stefán að loknum úrslitaleik kvenna í Aþenu í gær sögðu þeir að Ólympíuleikar væru að sjálfsögðu toppurinn á ferlinum en samt minnti fátt á að þeir væru á slíkum íþróttaviðburði. "Við höfum verið í fullri vinnu við að dæma handbolta og verið nánast einangraðir frá öllum öðrum greinum. Á þann hátt hefur þetta verið mjög svipað því að dæma á öðrum stórmótum. Aðalmunurinn er sá að hér eru bæði karla- og kvennaleikir á dagskránni og það þarf stundum að kúpla sér þar á milli, að sjálfsögðu erum við meðvitaðir um leikana, en dagleg rútína er mjög svipuð. Við áttum einn frídag og þá fórum við og horfðum á blak og strandblak," sagði Gunnar.

Þeir félagar dæmdu sex leiki, fimm karlaleiki og einn kvennaleik. Tveir þeirra voru í úrslitakeppni karla, auk undanúrslitaleiksins var það tvíframlengd viðureign Þjóðverja og Spánverja í átta liða úrslitum, sem síðan var útkljáð með vítakastkeppni.

"Við hljótum að vera sammála um að það sé eftirminnilegasti leikurinn okkar," sagði Stefán og Gunnar kinkaði kolli. "Þetta var einn með öllu, full höll, gífurleg stemmning og það er toppurinn að vera þátttakandi í svona leik, sem var ein stór auglýsing fyrir handboltann. Við vorum ánægðir með okkar hlut og sem betur fer höfðum við engin lokaáhrif á niðurstöðu leiksins," sagði Stefán og Gunnar bætti við: "Annars var leikur Brasilíu og Grikklands stórskemmtilegur og þetta eru þær tvær þjóðir sem eru í mestri uppsveiflu í handboltanum um þessar mundir."

Dómarar þurfa ekki síður en íþróttamenn að búa sig vel undir leiki og Gunnar sagði að undirbúningurinn stæði allan daginn. "Þetta mótast svolítið af því klukkan hvað leikurinn er, en hér dæmdum við oftast seint, jafnvel klukkan hálftíu á laugardagskvöldi. Við reyndum að sofa eins vel og hægt var, fengum okkur að borða og hófum síðan undirbúning. Fyrst ræddum við málin uppi á herbergi, skoðuðum liðin, fórum yfir hvernig leikaðferðir þeirra væru og fleira í þeim dúr. Oft var líka byrjað á að fara yfir leiki gærdagsins með eftirlitsmönnum, fyrst allir dómararnir saman og síðan hvert par fyrir sig. Við vorum síðan mættir í höllina klukkutíma fyrir leik og farnir að hita upp stundarfjórðungi síðar," sagði Gunnar.

"Við tókum þann pól í hæðina að vera sem minnst úti í sólinni því annars hefðum við bara verið dasaðir og slappir. Við reyndum að halda okkur innandyra í kælingu á leikdegi, aðrir dómarar skutust af og til í sólbað en við treystum okkur ekki til þess. Þetta hefur sko ekki verið nein sólarferð, enda stóð það ekki til," sagði Stefán.

Mikil vinna hjá varadómurum

Auk þess að dæma sex leiki voru Gunnar og Stefán varadómarar í sjö leikjum og það er stærra verkefni en flestir gera sér grein fyrir. "Þá þurfum við að búa okkur undir leikina, alveg eins og við værum að dæma sjálfir, því maður veit aldrei hvenær eitthvað kemur uppá og skipta þarf um dómara. Það gerðist ekki hér en við vorum að sjálfsögðu tilbúnir. Síðan voru varadómararnir hér með meiri verkefni en áður. Núna mældum við til dæmis þann tíma sem leikurinn var stöðvaður til að þurrka gólfið, en það voru allt að 15-20 skipti í leik og tafirnar af því 4-5 mínútur alls. Hér var það nýmæli tekið upp að gólfið var oft þurrkað þó leikurinn væri í gangi og það gekk mjög vel og gerði leikinn hraðari og skemmtilegri á að horfa. Ennfremur fylgdumst við með atriðum þar sem hægt hefði verið að gefa rauð spjöld fyrir að veita andstæðingi högg í andlit, fylgdumst með hvort rauð spjöld hefðu verið réttilega gefin, eða hvort slík atriði fóru framhjá dómurunum. Við sáum fullt af slíkum tilvikum, og það er allt saman skoðað eftir keppnina og farið yfir það, til að átta sig á hvað hægt sé að gera betur í dómgæslunni," sagði Gunnar.

Ólympíuleikar eru toppurinn á tilverunni hjá flestum íþróttamönnum og dómarar eru engin undantekning frá því. "Já, það er draumur allra að taka þátt í Ólympíuleikum og við erum mjög sáttir við okkar frammistöðu hér. Við náðum að dæma í undanúrslitum og það er góð viðurkenning, því það eru oft mikilvægustu leikir keppninnar, og eru oft meiri leikir en úrslitaleikirnir sjálfir. Við fórum ekki hingað með það í huga að við værum að fara að dæma úrslitaleik, heldur ætluðum við að njóta þess að vera hér. Við erum ekki einir í heiminum, Svíarnir sem dæmdu úrslitaleik karla hafa dæmt saman í 25 ár og voru á sínum öðrum Ólympíuleikum, en höfðu aldrei áður dæmt úrslitaleik á HM eða ÓL. Pólverjarnir sem dæmdu úrslitaleik kvenna höfðu ekki dæmt úrslitaleik á HM eins og við, auk þess sem við hefðum ekki verið settir á leik hjá Dönum, annarri Norðurlandaþjóð. Við erum því mjög sáttir við útkomuna hjá okkur og vitum að við náðum viðunandi árangri þótt engar einkunnir liggi fyrir ennþá," sagði Stefán.

Gunnar er innkaupastjóri hjá GT-tækni, sem er nokkurs konar dótturfélag Járnblendifélagsins á Grundartanga, og Stefán rekur teiknistofu fyrir Símann á Akureyri. "Við erum báðir mjög frjálsir í okkar vinnu, enda hefðum við aldrei getað gert þetta allt saman á undanförnum fimm árum, nema vegna gífurlegrar velvildar okkar vinnuveitenda, fjölskyldnanna og samstarfsfélaganna sem hafa liðið okkur það að sjást sjaldnar en aðrir í vinnunni."

Okkar mál eru að sigla í strand

Þeir Gunnar og Stefán standa á tímamótum því fimm ára áætlun sem þeir settu upp þegar þeir hófu dómgæslu saman í ársbyrjun árið 1999 lauk í gær. "Þá settum við stefnuna á Ólympíuleikana í Aþenu, og nú er þessu lokið. Um framhaldið vitum við ekkert ennþá en við setjumst niður á næstu dögum og skoðum okkar gang. Þetta er ekki einfalt, við erum 80-90 daga erlendis á ári, auk þess sem við vinnum fulla vinnu, æfum, dæmum heima á Íslandi, og reynum að sinna fjölskyldum okkar. Við höfum verið á fullu í um það bil hálft annað ár án þess að taka okkur hvíld og í sumar fórum við til dæmis í tíu daga ferð til Kína þar sem við dæmdum á innanlandsmóti til að búa okkur undir Ólympíuleikana. Þetta er mjög erfitt mál fyrir alla, kröfurnar eru að aukast á öllum sviðum, en við njótum engra styrkja og þetta er farið að bitna á öllum í kringum okkur. Það má segja að okkar mál séu að sigla í strand," sagði Gunnar.

En þeir aftóku eftir sem áður að þeir væru að íhuga að leggja flauturnar á hilluna. "Nei, við erum alls ekki að segja það en við þurfum samt að skoða hvort við viljum hafa þetta svona áfram, hvort hægt sé að finna einhvern flöt á því að létta aðeins undir með okkur. Við erum alls ekki hættir en okkar mál eru komin í biðstöðu sem stendur. En við höfum ekki langan tíma til ákvarðanatökunnar, það er skammt í að tilkynnt verði hverjir dæma á HM í Túnis í janúar og þá verðum við að vera með svör á reiðum höndum," sagði Stefán.

Víðir Sigurðsson skrifar frá Aþenu

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert