„Ég ætlaði að drepa manninn“

Derek Bell í leik með Newcastle.
Derek Bell í leik með Newcastle. Skjáskot/twitter

Derek Bell, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Newcastle, segir að hann hafi viljað drepa þjálfarann sem áreitti hann kynferðislega á áttunda áratug síðustu aldar.

Þjálfari hans, George Ormond, áreitti Bell þegar hann var unglingur. 

Ormond var dæmdur í sex ára fangelsi árið 2002 eftir að hafa verið fundinn sekur um kynferðislegt áreiti gegn ungum drengjum.

Bell segist hafa farið að húsi Ormond seint á níunda áratugnum, vopnaður hníf, en fyrrverandi þjálfarinn hans var ekki heima.

Ormond starfaði þá hjá yngri flokkum Newcastle, en Bell rakst á hann í borginni. „Ég ætlaði að drepa manninn. Ég hugsaði með mér að ég gæti ekki lifað, ég virtist alltaf sjá þennan mann,“ sagði Bell í samtali við útvarp BBC.

„Allar minningarnar frá fyrri tíð spruttu fram og mig langaði að drepa hann. Ég fór að húsinu hans með hníf falinn í vasanum og bankaði á dyrnar. Sem betur fer, hans vegna, þá var hann ekki heima,“ bætti Bell við.

Bell, sem lék með Newcastle í byrjun níunda áratugarins, segir að Ormond hafi beitt hann hræðilegu ofbeldi mörg hundruð sinnum.

„Af hverju?“

Bell sneri aftur að heimili Ormonds nokkrum dögum eftir að hann kom með hnífinn. Þá var hann vopnaður upptökutæki en það hafði hann falið á sér og ætlaði að fá Ormond til að viðurkenni glæpinn.

„Ég spurði bara ítrekað, af hverju, af hverju? Hver var hans hvatning til að áreita mig stöðugt, hóta mér og múta mér? Hann baðst aldrei afsökunar, sagðist einfaldlega ekki vita af hverju. Hann hugsaði aðallega um að ég myndi ekki segja lögreglunni frá málinu,“ sagði Bell.

Afleiðingar ofbeldisins hafa verið slæmar en Bell hefur þrisvar sinnum reynt að fremja sjálfsmorð.

„Ég stíg fram til að reyna að hjálpa öðrum fórnarlömbum. Verið hugrökk.“

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert