Níræður og keppir í fimm greinum á HM

Sigurður Haraldsson.
Sigurður Haraldsson. mbl.is/Golli

Sigurður Haraldsson, sem keppir fyrir Leikni á Fáskrúðsfirði, verður í fararbroddi fimm Íslendinga sem taka þátt í heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum öldunga innanhúss en það er haldið í Torun í Póllandi 24. til 30. mars og hefst því á sunnudaginn kemur.

Sigurður er aldursforseti hópsins, nýlega orðinn níræður, og keppir í fyrsta skipti í flokki 90-94 ára en hann hefur fengið fjölda verðlauna á heimsmeistaramótum og Evrópumótum öldunga þar sem hann hefur keppt um langt árabil.

Sigurður keppir jafnframt í flestum greinum af Íslendingunum fimm, í spjótkasti, sleggjukasti, kringlukasti, kúluvarpi og lóðkasti. Hann á bestan árangur þeirra sem skráðir eru til leiks í spjótkasti, næstbestan í kringlukasti og þriðja besta í bæði sleggjukasti og lóðkasti og er því líklegur til að koma heim frá Póllandi með nokkur verðlaun en þau sendir hann ávallt austur á Fáskrúðsfjörð til síns félags.

Kristján Gissurarson er einnig líklegur til að berjast um verðlaunasæti á mótinu en hann á næstbesta árangur allra þeirra sem skráðir eru til leiks í stangarstökki í flokki 65-69 ára karla.

Fríða Rún Þórðardóttir keppir í þremur greinum í flokki 45-49 ára kvenna og hún á þriðja besta tíma keppenda í 8 km hlaupi. Hún keppir líka í 3.000 metra og 10 km hlaupi.

Þá keppir Einar Hjaltason í 60 metra hlaupi í flokki 70-74 ára karla og Malgorzata Sambor Zyrek keppir í 60 metra og 200 metra hlaupum í flokki 40-44 ára kvenna, en hún er yngst Íslendinganna á mótinu. vs@mbl.is

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »