Þreytt á að vera notuð sem tilraunadýr

Caster Semenya.
Caster Semenya. AFP

Hlaupakonan Caster Semenya segist vera þreytt á því að Alþjóðafrjálsíþróttasambandið sé að nota hana sem tilraunadýr. Sambandið hefur krafist þess að Semenya taki lyf sem bæli niður testó­steronmagnið í líkama hennar.

Semenya vildi ekki sætta sig við það og fór í mál sem hún tapaði fyr­ir íþrótta­dóm­stóln­um í Sviss. Því vísaði hún til Hæsta­rétt­ar í Sviss sem úr­skuðaði henni í vil, meðal ann­ars á grund­velli mann­rétt­inda kvenna í íþrótt­um. 

Mál­inu er ekki lokið og Alþjóðafrjálsíþrótta­sam­bandið á eft­ir að bregðast við en reglu­gerð þess er í það minnsta ekki í gildi eft­ir dóm Hæsta­rétt­ar. Semenya er allt annað en sátt við málið og segir hún að lyfin sem sambandið krefst þess að hún taki láti sér líða illa. 

„Ég ætla ekki að láta Alþjóðafrjálsíþróttasambandið nota líkamann minn aftur. Sambandið hefur notað mig áður sem tilraunadýr til að sjá virkni lyfjanna. Lyfin láta mér líða illa og ég verð stanslaust veik þegar ég tek þau inn. Það er óvíst hvaða langvarandi áhrif þau hafa á heilsuna mína,“ sagði Semanya á ráðstefnu Alþjóðaíþróttadómstólsins í Sviss. 

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið vill að hún, og fleiri kon­ur í sömu stöðu í 400, 800 og 1.500  metra hlaup­um, taki inn lyf til að fá að keppa á mót­um á veg­um sambandsins. Semenya er 28 ára og kem­ur frá Suður-Afr­íku. Hún er þre­fald­ur heims­meist­ari og tvö­fald­ur ólymp­íu­meist­ari í 800 metra hlaupi. 

mbl.is