María Rún í fjórða sæti á Madeira

María Rún Gunnlaugsdóttir.
María Rún Gunnlaugsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Um helgina fer fram Evrópubikar í fjölþrautum á eyjunni Madeira sem er hluti af Portúgal. Keppt er í þremur deildum og keppir Ísland í annarri deild sem er sú neðsta.

Keppnisfyrirkomulag er með þeim hætti að bæði er keppt í einstaklingsflokki og svo eru stig þriggja stigahæstu íþróttamanna hverrar þjóðar tekin saman og tvær stigahæstu þjóðirnar fara upp um deild. 

Eftir fyrri keppnisdag er María Rún Gunnlaugsdóttir efst íslensku keppendanna í fjórða sæti eftir fjórar greinar af sjö. María er með 3.328 stig, aðeins 44 stigum frá verðlaunasæti. María lenti í fimmta sæti í 100 metra grindahlaupi, hástökki og 200 metra hlaupi.

Í hástökki stökk hún 1,75 metra sem er hennar besti árangur utanhúss en innanhúss hefur hún stokkið 1,76 metra. Í 200 metra hlaupi hljóp hún á 25,51 sekúndu sem er einnig persónulegt met. María hefur náð betri árangri í öllum greinum dagsins en þegar hún átti sína bestu þraut. Sá árangur er frá árinu 2017 og er 5.488 stig.

Næstefstur íslensku keppendanna er Benjamín Jóhann Johnsen. Hann er í sjöunda sæti með 3.667 stig þegar tugþrautin er hálfnuð. Bestum árangri náði hann í hástökkinu þar sem hann sigraði með því að stökkva yfir 1,98 metra. Það er aðeins einum sentimetra frá hans besta árangri utanhúss og tveimur sentimetrum frá hans besta innanhúss.

Benjamín fór í fyrsta skipti yfir sjö þúsund stig í Svíþjóð í byrjun júní. Eftir fyrri keppnisdag var hann með 3.449 stig, nú er hann hins vegar með 3.667 stig og því stefnir allt í góða bætingu.

Ísak Óli Traustason er eins og stendur ellefti með 3.586 stig. Hann á best 6.723 stig og því gæti Ísak Óli bætt sinn besta árangur í þraut ef vel gengur á morgun. Í dag hefur hann náð betri árangri í 100 metra hlaupi, kúluvarpi og 400 metra hlaupi en árangur hans í hans bestu þraut.

Andri Fannar Gíslason og Glódís Edda Þuríðardóttir eru bæði í nítjánda sæti. Andri Fannar er með 3.291 stig og Glódís Edda með 2.749 stig. Sindri Magnússon þurfti að hætta þátttöku eftir fjórar greinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert